Fótbolti

Svein­dís mætt aftur í leik­manna­hóp Wolfs­burg eftir meiðsli

Aron Guðmundsson skrifar
Sveindís fór sárþjáð af velli í leik gegn Þýskalandi í síðasta mánuði
Sveindís fór sárþjáð af velli í leik gegn Þýskalandi í síðasta mánuði Vísir/Getty

Íslenska landsliðskonan í fótbolta, Sveindís Jane Jónsdóttir, er mætt aftur í leikmannahóp Wolfsburg eftir að hafa glímt við axlarmeiðsli sem hún varð fyrir í landsleik gegn Þýskalandi í síðasta mánuði.

Sveindís Jane var í raun tekin úr leik í umræddum leik gegn Þýskalandi þann 9.apríl síðastliðinn þegar að liðsfélagi hennar hjá Wolfsburg, hin þýska Kathrin Hendrich, braut fólskulega á henni í fyrri hálfleik í landsleik Þýskalands og Íslands í undankeppni EM 2025.

Tvö liðbönd í vinstri öxl Sveindísar rofnuðu og virðist endurhæfingin hafa gengið áætlun samkvæmt því Sveindís er á meðal varamanna Wolfsburg fyrir leik gegn Köln í þýsku úrvalsdeildinni í dag.

Er það í fyrsta sinn frá landsleiknum gegn Þýskalandi sem hún er í leikmannahópi Wolsburg. Svo sannarlega ánægjuleg tíðindi fyrir íslenska landsliðið sem á fyrir höndum tvo mikilvæga leiki gegn Austurríki í undankeppni EM um næstu mánaðarmót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×